Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 482/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 482/2023

Miðvikudaginn 14. febrúar 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 6. október 2023, kærði B félagsráðgjafi, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. maí 2023 um upphafstíma greiðslna örorkulífeyris.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 29. ágúst 2019. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 19. desember 2019, var umsókn kæranda synjað en hann var talinn uppfylla skilyrði örorkustyrks vegna tímabilsins 1. júní 2019 til 31. maí 2023. Kærandi sótti á ný um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins með umsóknum 23. ágúst og 22. október 2020, sem var synjað með ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins 14. og 27. október 2020. Ákvörðun stofnunarinnar frá 14. október 2020 var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, kærumál nr. 518/2020. Með úrskurði nefndarinnar, dags. 10. mars 2021, var ákvörðun stofnunarinnar staðfest. Kærandi sótti á ný um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn 1. desember 2021 sem var synjað með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. desember 2021. Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri 28. apríl 2022 sem var synjað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. maí 2022, á þeim grundvelli endurhæfingaráætlun hafi hvorki verið talin nægilega umfangsmikil né markviss þannig að fullnægjandi yrði talið að verið væri að vinna með aukna starfshæfni að markmiði. Kærandi sótti um örorkulífeyri á ný með umsókn 24. maí 2022, sem var synjað með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. ágúst 2022, að undangenginni skoðun hjá skoðunarlækni á þeim grundvelli að skilyrði staðals væru ekki uppfyllt. Kærandi sótti um örorkulífeyri enn á ný 13. október 2022 sem var synjað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. október 2022. Sú ákvörðun, var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, kærumál nr. 51/2023. Með úrskurði nefndarinnar, dags. 3. maí 2023, var ákvörðun stofnunarinnar felld úr gildi og fallist á að kærandi uppfyllti skilyrði 75% örorku. Málinu var vísað heim til ákvörðunar um tímalengd örorkulífeyris. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. maí 2023, var upphafstími örorkumats ákvarðaður frá 1. júní 2022. Farið var fram á rökstuðning vegna ákvörðunarinnar og var hann veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 7. júlí 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. október 2023. Með bréfi, dags. 11. október 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Viðbótargögn og greinargerð bárust frá umboðsmanni kæranda 13. október 2023 sem voru send Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. október 2023. Með bréfi, dags. 15. nóvember 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. nóvember 2023. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda 5. desember 2023 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. desember 2023. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. júlí 2023, um að upphafstími 75% örorkumats skuli ekki ná lengra aftur í tímann en til 1. júní 2022.

Kærandi hafi í janúar 2023 kært til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja honum um 75% örorkumat. Í úrskurði í máli nr. 51/2023 hafi úrskurðarnefndin fallist á að kærandi uppfyllti skilyrði 75% örorkumats og hafi málinu verið vísað aftur til stofnunarinnar til ákvörðunar á tímalengd greiðslu örorkulífeyris.

Með bréfi, dags. 30. maí 2023, hafi Tryggingastofnun samþykkt 75% örorkumat frá 1. júní 2022. Beiðni kæranda um rökstuðning fyrir gildistíma örorkumatsins hafi verið svarað með bréfi stofnunarinnar, dags. 7. júlí 2023. Samkvæmt bréfinu hafi upphafstími örorkumats verið ákveðinn frá 1. júní 2022, á þeim tímapunkti hafi það verið metið svo að endurhæfing væri fullreynd.

Í desember 2019 hafi kærandi fengið 50% örorkumat hjá Tryggingastofnun með gildistíma frá 1. júní 2019 til 31. maí 2023. Því sé ljóst að mat stofnunarinnar hafi á þeim tíma verið að endurhæfing væri fullreynd. Umsókn hans um örorkulífeyri hafi ekki verið synjað á þeim forsendum að endurhæfing væri ekki fullreynd. Þvert á móti hafi Tryggingastofnun talið tímabært að meta örorku kæranda og hafi boðað hann í viðtal og skoðun vegna örorkumats.

Kærandi hafi í nokkur ár verið á biðlista eftir endurhæfingu á Reykjalundi. Í greinargerð frá Reykjalundi sé tekið fram að kæranda hafi verið synjað um örorku 23. ágúst 2020 vegna væntanlegrar komu hans á Reykjalund. Kærandi hafi komist að á Reykjalundi í fyrstu viku febrúar 2022 og síðan í 6 vikna endurhæfingu á Gigtarsviði frá 11. apríl 2022. Á endurhæfingartímabilinu hafi kærandi ítrekað þurft að leita til LSH og hafi hann verið lagður þar inn vegna blæðingu „rectalt“ eða frá 27. til 29. apríl.

Einstaklingar með 75% örorkumat fái endurhæfingu á Reykjalundi, eins og á öðrum endurhæfingarstöðvum, sem bjóða upp á læknisfræðilega endurhæfingu. Sú staða að umsækjandi um örorkulífeyri sé á biðlista eftir að komast á Reykjalund eigi ekki að koma í veg fyrir að 75% örorkumat sé samþykkt.

Ítrekað komi fram í læknisvottorðum að heilsufar kæranda sé alvarlegt og að ekki verði séð að breyting verði þar á, meðal annars sé bent á að í gögnum málsins segi að þann 3. júlí 2018 hafi kærandi þegar lokið 31 mánuði í endurhæfingu án árangurs. Nokkrum árum eftir að kærandi hafði lokið endurhæfingu án árangurs hafi hann loks komist að á Reykjalundi. Eins og fram komi í greinargerð frá Reykjalundi, dags. 7. júní 2022, hafi kærandi átt erfitt með að sinna hreyfiprógramminu vegna heilsufarsvanda, hann hafi verið lágur bæði í járni og hemóglóbíni sem hafi leitt til þreytu og orkuleysis. Ekki hafi verið gerð endurhæfingaráætlun á Reykjalundi fyrir kæranda þar sem ekki hafi verið hægt að sýna fram á að hann væri að stefna að vinnumarkaði og hann hafi ekki verið talinn vinnufær.

Kærandi hafi ítrekað sótt um örorkumat á árunum 2020 til 2022 sem hafi verið synjað á þeim forsendum að hann hafi ekki uppfyllt skilyrði 75% örorkumats. Fyrsta umsóknin sé frá 28. janúar 2020.

Eftirfarandi sé tekið úr læknisvottorðum sem hafi verið gefin út fyrir upphafstíma örorkumats kæranda.

Í læknisvottorði, dags. 13. mars 2019, segi um heilsuvandi og færniskerðing nú: „Vaxandi þreyta og vöðvaverkir frá 2009. Rannsóknir og meðferð leitt í ljós sjúkdóminn Homocysteinuriu. Sá sjúkdómur veldur veiklun á bandvefi í líkamanum svo sem stoðkerfi og æðar. Mikil stoðkerfiseinkenni bæði mjóbaksvandamál og háls og höfuðverkir með slæmu migrene og blæðingar frá meltingarvegi. Þarf reglulega á járngjöfum. Verið meira og minna óvinnufær þess vegna am sl. 5 ár.“

Í læknisvottorði, dags. 16. september 2020, komi fram að kærandi hafi verið greindur með „homocyteinuriu“ í júlí 2020. Í vottorðinu segi: „Miklir og versnandi stoðkerfisverkir frá 2013. Greindur með vefjagigt. Verið óvinnufær frá apríl 2015 vegna stoðkerfisverkja og þreytu. Þá kemur einnig fram að kærandi hafi glímt við þunglyndi og kvíða á tímabilum, þó mest tengt hans líkamlega ástandi og fjárhagslegu óöryggi. Er með verki, verstur í höndum og fótum og einning baki og öxlum. Mikil þreyta og slappleiki. Á erfitt með líkamlegt álag, þolir t.d. illa stöður og að lyfta einhverjum.“

Í læknisvottorði, dags 26. október 2021, segi um heilsuvanda og færniskerðing nú: „Homocysteinuria með miklum stoðkerfis- og verkja einkennum og viðkvæmum bandvef, mikið úthaldsleysi. Mikil og þrálátur dvítamín skortur auk B12 skorts folinsýru og B6 vítaminskorts. Haft stóra æðahnúta í ristill sem hafa blætt. Þurft endurtekið á járngjöfum að halda, einnig einkenni frá smágirni með upptökubresti. Meira og minna óvinnufær vegna migren höfuðverkja slappleika og úthaldsleysis. Autonom einkenni með svitaköstum.“

Úr nýrri læknisvottorðum, þar sem komið sé inn á ástand kæranda árin á undan komi eftirfarandi fram.

Kærandi hafi frá árinu 2009 glímt við „vaxandi þreytu og vöðvaverkir. Rannsóknir og meðferð leiddu í ljós sjúkdóminn Homocysteinuriu. Sá sjúkdómur veldur mikilli veiklun á bandvef í líkamanum svo sem stoðkerfi og æðakerfi.“ Samhliða hafi kærandi átt í miklum vanda „varðandi meltingu með króniskum niðurgangi B12 vitaminskorti og einnig dæmigerðum skorti á B6“ með mikilli hækkun á Homocyseini. „D-vitamín skortur hefur verið stórt vandamál svo og nú aðalvandamálið sem er köst með miklum blæðingum frá stórum bláæðaflækjum sem eru í ristlinum.“ Kærandi fái „ófyrirséð skyndilega miklar blæðingar sem valda mikilli lækkun á blóðgildi með tilheyrandi slappleika. Þrátt fyrir nauðsynlegar járngjafir á 1-2ja mánaða fresti tekst ekki að ná járnbúskap upp í æskileg mörk.“, sbr. læknisvottorð, dags. 13. október 2022.

Árið 2013 hafi kærandi í að minnsta kosti í tvígang verið lagður inn á Landspítalann vegna „gastrointenstinal“ blæðingar og hafi þá þurft blóðgjöf. Kærandi hafi verið greindur með járnskortsanemiu á þessum tíma og alloft fengið járn í æð, sbr. læknisvottorð, dags. 31. maí 2022.

Í spurningalista vegna færniskerðingar, mótteknum 27. nóvember 2021, hafi kærandi lýst því yfir að hann eigi við geðræn vandamál að stríða: „Athyglisbrestur, mikið þunglyndi og vonleisi og fjárhagskvíði sem versnar.“ Ekki hafi legið fyrir spurningalisti vegna færniskerðingar við örorkumat frá 19. desember 2019.

Í læknisvottorði frá 26. október 2021 hafi C greint frá því að kærandi sé á bið eftir að komast að hjá D (geðlækni) vegna einkenna athyglisbrests og þunglyndis.

Í spurningalista vegna færniskerðingar fyrir umsókn um örorkumat árið 2022 komi fram undir geðræn vandamál: „A hefur verið að takast á við þunglyndi og kvíða vegna afkomukvíða og langvarandi heilsufarsvanda. A svaraði lista hjá sálfræðingi á Reykjalundi, úr því kom að hann væri með alvarlegan kvíða og alvarleg þunglyndiseinkenni.“

Örorkumatsstaðallinn nái ekki utan um alvarleg sjúkdómseinkenni, s.s. miklar blæðingar í stórum bláæðaflækjum í ristlinum, krónískan niðurgang, veiklun á bandvef í líkamanum og skorts á nauðsynlegum vítamínum, sem kærandi hafi verið að glíma við til fjölda ára. Auk þess sem kærandi sé með aðrar sjúkdómsgreiningar, s.s. mígreni og vefjagigt sem staðallinn nái ekki utan um.

Öll gögn málsins styðji 75% örorkumat lengra aftur í tímann en frá 1. júní 2022. Gögn málsins beri ótvírætt með sér að kærandi hafi uppfyllt skilyrði 75% örorkumats frá 1. júní 2019.

Þrátt fyrir að í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála hafi ekki verið tekið fram hvaða tímamark beri að leggja til grundvallar um upphaf ástands kæranda verði heldur ekki ráðið af niðurstöðu nefndarinnar að ástand hans hafi byrjað 1. júní 2022 eða hafi tekið breytingum frá því að kærandi hafi fyrst sótt um örorkumat.

Það sé því ljóst að niðurstaða Tryggingastofnunar um að samþykkja ekki 75% örorkumat frá júní 2019 hafi ekki verið byggð á forsvaranlegu mati á gögnum málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Það leiði af rannsóknarreglu 10. gr. og almennum sönnunarkröfum í málum um örorkumat að það verði að liggja fyrir á hvaða upplýsingum og gögnum niðurstaðan sé byggð. Biðtími eftir að komast á Reykjalund sé fjarri því að vera lögmæt ástæða þess að synja kæranda um 75% örorkumat lengra aftur í tímann en 1. júní 2022.

Í athugasemdum, dags. 5. desember 2023, kemur fram að ákvörðun Tryggingastofnunar um að samþykkja ekki örorkulífeyri fyrir kæranda lengra aftur í tímann en til 1. júní 2022 byggi á því að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd fyrir þann tíma og sé vísað í rökstuðning stofnunarinnar, dags. 13. nóvember 2023. Kærandi kannist ekki við að hafa fengið bréf frá Tryggingastofnun, dags. 13. nóvember 2023. Hins vegar hafi kærandi fengið svarbréf stofnunarinnar við beiðni um rökstuðningi, dags. 7. júlí 2023, þar sem fram komi að upphaf örorkumats skuli vera frá 1. júní 2022 því á þeim tímapunkti hafi verið metið að endurhæfing væri fullreynd.

Eins og komi fram í kæru hafi kærandi fengið 50% örorkumat hjá Tryggingastofnun í desember 2019. Því sé ljóst að mat Tryggingastofnunar hafi á þeim tíma verið að endurhæfing hafi verið fullreynd. Umsókn hans um örorkulífeyri hafi ekki verið synjað á þeim forsendum að endurhæfing væri ekki fullreynd. Þvert á móti hafi Tryggingastofnun talið tímabært að meta örorku kæranda og hafi boðað hann í viðtal og skoðun fyrir örorkumat. Í greinargerð Tryggingastofnunar segi að ákvörðun um örorkustyrk byggi á mati á þeim tímapunkti sem ákvörðunin hafi verið tekin og heilsuvandi og endurhæfingarmöguleiki geti breyst. Ekkert í gögnum málsins styðji að kærandi hafi verið endurhæfanlegur á þessum tímapunkti.

Í greinargerð frá Reykjalundi, dags. 7. júní 2023, komi fram að kæranda hafi verið synjað um örorku þann 23. ágúst 2020 vegna væntanlegrar komu á Reykjalund. Kærandi hafði verið nokkur ár á biðlista eftir endurhæfingu á Reykjalundi áður en hann hafi komist í endurhæfingu á gigtarsviði fyrst í byrjun febrúar 2022. Á þeim tíma hafi kærandi verið að fá greiddan örorkustyrk. Eins og komi fram í greinargerð Reykjalundar sé ekki hægt að greiða örorkustyrk og endurhæfingarlífeyri á sama tíma. „Ekki var hægt að fella niður örorkustyrk til þess að fá endurhæfingarlífeyri nema að senda inn endurhæfingaráætlun sem sýni fram á að hann sé að stefna á vinnumarkað á næstu misserum. Gigtarteymi Reykjalundar telur ekki rökrétt að gera þessa endurhæfingaráætlun þar sem A er ekki talinn vinnufær. Þess vegna fékk A ekki endurhæfingarlífeyri á tímabilinu sem hann var í endurhæfingu á Reykjalundi.“

Endurhæfingaráætlunin hafi ekki verið fullnægjandi og af gögnum málsins sé ljóst að líkamlegt og andlegt ástand kæranda hafi verið of bágborið til að hann hafi getað ástundað endurhæfingaráætlun sem talin hefði verið fullnægjandi til að fá greiddan endurhæfingarlífeyri.

Í skoðunarskýrslum frá árinu 2019 og 2022 hafi skoðunarlæknir merkt við að endurhæfing sé fullreynd.

Eftirfarandi athugasemdir séu gerðar við skoðunarskýrslu, dags. 17. desember 2019.

Varðandi stigagjöf fyrir líkamlega hluta staðalsins séu eftirfarandi athugasemdir gerðar:

Varðandi liðinn að beygja og krjúpa. Skoðunarlæknir hafi merkt við að hann beygi sig og krjúpi án vandkvæða með eftirfarandi rökstuðningi: „Kemur fram við skoðun.“

Athugasemdir séu þær að í spurningalista vegna færniskerðingar hafi kærandi svarað að það væri mikill dagamunur, hann sé mjög stífur suma daga. Í læknisvottorði, dags. 16. september 2020, segi: „Er með verki, verstur í höndum og fótum og einnig í baki og öxlum. Einnig mikil þreyta og  slappleiki. Á erfitt með líkamlegt álag, þolir t.d. illa stöður og að lyfta einhverju […] Er aumur yfir öllum vöðvafestum umhverfis liði og hypermobíll.“

Varðandi liðinn að ganga í stiga. Skoðunarlæknir hafi merkt við: „Getur gengið upp og niður stiga án vandkvæða.“ með eftirfarandi rökstuðningi: „Engin saga um vandamál með að ganga upp og niður stiga.“ Ekkert komi fram um hvort þetta hafi verið prófað í viðtalinu.

Athugasemdir séu þær að svar við sömu spurningu sé að finna í spurningalista vegna færniskerðingar: „Fæ verk í bak við að ganga mikið upp í mótið.“ Í læknisvottorði, dags. 16. september 2020, segi: „Er með verki, verstur í höndum og fótum og einnig í baki og öxlum. Einnig mikil þreyta og slappleiki. Á erfitt með líkamlegt álag.“ Í læknisvottorði, dags. 22. desember 2020, segi: „Hann þjáist af mikilli þreytu og verkjum í skrokk.“ Í skoðunarskýrslu segi um heilsufar og sjúkrasögu: „alltaf þreyttur og verkir í stoðkerfi og vöðvar latir og afllitlir. Óþægindi í ökklum, fótum og á punktum vefjagigtar.“ Að ganga í stiga sé erfitt fyrir kæranda vegna mikillar þreytu og verkja og því geti hann ekki gengið upp og niður stiga án vandkvæða.

Varðandi liðinn að lyfta og bera. Skoðunarlæknir hafi merkt við: „Engin vandkvæði við að lyfta og bera.“ með eftirfarandi rökstuðningi: „Getur samkvæmt sjúkrasögu lyft hlutum eins og þessum og borið án erfiðleika.“

Athugasemdir séu þær að kærandi hafi lítið úthald og sé lengi að jafna sig á eftir. Í læknisvottorði, dags 16. september 2020, segi: „Á erfitt með líkamlegt álag, þolir t.d. illa stöður og að lyfta einhverju.“

Eftirfarandi athugasemdir séu gerðar varðandi stigagjöf fyrir andlega hluta staðalsins. 

Skoðunarlæknir hafi svarað því neitandi að andlegt álag (streita) hafi átt þátt í að kærandi hafi lagt niður starf með þeim rökstuðningi að líkamleg einkenni hafi ráðið því.

Í seinni skoðunarskýrslu, dags. 12. ágúst 2022, hafi kærandi fengið stig fyrir þennan lið með eftirfarandi rökstuðningi: „Líkamlegt og andlegt.“ Þessi rökstuðningur eigi einnig við þegar fyrsta örorkumatið hafi verið gert. Í læknisvottorði frá árinu 2020 hafi þunglyndi verið tekið fram undir sjúkdómsgreiningum. Í læknisvottorði, dags. 16. september 2020, segi: „Einnig hefur hann glímt við þunglyndi og kvíða á tímabilum, þó mest tengt hans líkamlega ástandi og fjárhagslegu óöryggi.“ Í læknisvottorði, dags. 21. nóvember 2023, segi: „Verulegt þunglyndi síðan 2015. Meðferð við þunglyndi byrjaði með því að E gigtarlæknir A setti hann á Sertral í febrúar 2015 en ekki hafði þá tekist að finna geðlækni. Reynt síðan Esopram 10 sem hvorugt virkaði. Síðan reynt Duloxetin.“

Hins vegar hafi skoðunarlæknir lýst geðheilsu kæranda í stuttu máli þannig að hann sé við ágæta geðheilsu, en undir heilsu- og sjúkrasögu komi fram að kærandi hafi verið þunglyndur. Sjálfur hafi kærandi svarað í spurningalista vegna færniskerðingar fyrir umsókn árið 2019 undir geðræn vandamál: „Athyglisbrestur, mikið þunglyndi og vonleysi og fjárhagskvíði sem versnar.“

Varðandi spurninguna hvort kæranda finnist hann oft að hann hafi svo mörgu að sinna að hann gefist upp vegna þreytu, sinnuleysis og áhugaleysis, þar hafi skoðunarlæknir merkt við nei með eftirfarandi rökstuðningi: „Hefur ekki orðið fyrir því.“

Vísað er varðandi þennan lið í athugasemdir kæranda við spurninguna hvort að andlegt álag (streita) hafi átt þátt í því að hann hafi lagt niður starf.

Læknar hafi ítrekað skrifað í læknisvottorðum um mikla þreytu og slappleika kæranda. Í skýrslu skoðunarlæknis segi: „Heimilisstörf gengur illa vegna orkuleysis.“

Varðandi spurninguna hvort að kærandi kvíði því að sjúkleiki hans versni, fari hann aftur að vinna, hafi skoðunarlæknir merkt við nei með eftirfarandi rökstuðningi: „Varla“.

Þessi rökstuðningur skoðunarlæknis verði að teljast ófullnægjandi og óljós og ekki að sjá á hverju hann sé byggður. Eins og fram komi í gögnunum og einnig í skýrslu skoðunarlæknis sé kærandi alltaf þreyttur og glími við hamlandi þreytu.

Sjónarmið kæranda hafi verið ítarlega rakin í kæru og allt sem þar komi fram svo og í fylgigögnum sé ítrekað.

Að synja umsóknum einstaklinga um 75% örorkumat sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því hvíli ríkar skyldur á Tryggingastofnun að gæta að því að stjórnarskrárvarinn réttur einstaklinga til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika sé ekki fyrir borð borinn.

Gerðar séu ríkar kröfur til þess að fyrir liggi á hvaða upplýsingaöflun og forsendum ákvörðun Tryggingastofnunar, sem hnígi í aðra átt en fyrirliggjandi læknisfræðileg gögn, sé reist. Það eigi frekar við þegar niðurstaða stjórnvalds sé aðila máls í óhag, eins og í máli þessu. Ljóst sé að niðurstaða stofnunarinnar sé ekki í samræmi við upplýsingar um afstöðu fagaðila sem birtist í læknisfræðilegum gögnum málsins. Jafnframt sé skoðunarskýrsla skoðunarlæknis á vegum Tryggingastofnunar á skjön við faglegt og læknisfræðilegt mat þeirra lækna kæranda sem hafi aðstoðað hann við umsóknirnar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun, dags. 30. maí 2023, um að samþykkja umsókn um örorkulífeyri frá 1. júní 2022 til 30. maí 2023.

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi varðandi gildistíma ákvörðunarinnar sem hafi verið veittur með bréfi, dags. 7. júlí 2023.

Í málinu reyni einungis á frá hvaða tímapunkti rétt sé að samþykkja veitingu örorkulífeyris.

Í 32. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um upphaf og lok greiðsluréttar og greiðslufyrirkomulag. Í 1. mgr. 32. gr. segir:

„Réttur til greiðslna samkvæmt lögum þessum stofnast frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til greiðslna og skulu greiðslur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að greiðsluréttur er fyrir hendi. Greiðslur falla niður í lok þess mánaðar er greiðslurétti lýkur.“

Tímamark upphaf greiðslna miðast við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að skilyrði til greiðslna séu uppfyllt. Í 4. mgr. 32. gr. segi að „greiðslur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um rétt til greiðslna og fjárhæð þeirra.“

Kærandi hafi fyrst sótt um örorkulífeyri 29. ágúst 2019. Í samræmi við skýrslu skoðunarlæknis hafi örorka verið metin 50% þannig að örorkustyrkur hafi verið veittur. Gildistími matsins hafi verið frá 1. júní 2019 til 31. maí 2023.

Kærandi hafi nokkrum sinnum reynt að fá örorkumati breytt þannig að örorka yrði metin að minnsta kosti 75% og að skilyrði örorkulífeyris væru þannig uppfyllt. Slíkum umsóknum hafi verið synjað 4. febrúar 2020, 14. október 2020 og 6. desember 2021 á þeim grundvelli að skilyrði staðals hafi ekki verið uppfyllt.

Ákvörðun frá 14. október 2020 hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, sem hafi staðfest synjun um örorkulífeyri í úrskurði 10. mars 2021 í máli nr. 518/2020.

Kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri 28. apríl 2022, samhliða henni hafi kærandi skilað endurhæfingaráætlun og viðeigandi læknisvottorði. Upphaf endurhæfingartímabils samkvæmt endurhæfingaráætluninni hafi verið 31. mars 2022 og lok tímabilsins hafi verið 31. maí 2022. Þann 5. maí 2022 hafi umsókninni verið synjað á þeim grundvelli að endurhæfingaráætlun hafi hvorki verið talin nægilega umfangsmikil né markviss þannig að fullnægjandi yrði talið að verið væri að vinna með aukna starfshæfni að markmiði.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri að nýju, dags. 13. október 2022, sem hafi verið synjað á þeim grundvelli að skilyrði staðals hafi ekki verið uppfyllt. Sú ákvörðun hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, sem hafi talið að svefnvandamál hafi ekki verið metin til fulls í örorkumati og að kærandi hafi uppfyllt staðal ef tillit væri tekið til svefnvandamáls. Úrskurðarnefndin hafi af þeim sökum fellt ákvörðunina úr gildi og hafi beint til Tryggingastofnunar að ákvarða tímalengd greiðslu örorkulífeyris.

Tryggingastofnun hafi samþykkt veitingu örorkulífeyris, dags. 30. maí 2023, en hafi ekki talið að veita ætti örorkulífeyri lengra aftur í tímann en til 1. júní 2022, þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd fyrir þann tíma, eins og hafi komið fram í rökstuðningi stofnunarinnar.

Við mat á því tímamarki þegar kærandi hafi verið talinn uppfylla skilyrði örorkulífeyris hafi Tryggingastofnun byggt á því að hann hafi verið endurhæfanlegur til 1. júní 2022. Því til stuðnings beri að nefna að kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri 28. apríl 2022 fyrir endurhæfingartímabilið frá 31. mars 2022 til 31. maí 2022. Framlögð gögn með umsókn um endurhæfingarlífeyri, þ. á m. endurhæfingaráætlun og læknisvottorð, styðji að endurhæfing hafi í reynd ekki verið fullreynd á þeim tíma. Umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri hafi verið synjað, ekki á þeirri forsendu að endurhæfing væri fullreynd, heldur vegna þess að endurhæfingaráætlun hafi verið ófullnægjandi.

Kærandi bendi réttilega á í kæru að honum hafi verið veittur örorkustyrkur árið 2019, þar sem gildistími örorkumatsins hafi verið frá 1. júní 2019 til 31. maí 2023, og að örorkustyrkur sé ekki veittur nema að endurhæfing teljist fullreynd. En það byggist á mati á þeim tímapunkti þegar slík ákvörðun sé tekin og heilsuvandi og endurhæfingarmöguleiki geti breyst, eins og mörg dæmi séu um. Eðli máls samkvæmt sé álitamál hvenær nákvæmlega kærandi hafi orðið endurhæfanlegur. Þar sem heilsuvandi hans hafi ekki breyst til muna frá veitingu örorkustyrks til umsóknar hans um endurhæfingarlífeyri, sé ekki ólíklegt að hann hafi verið endurhæfanlegur um það leyti sem hann hafi þegið örorkustyrkinn eða skömmu eftir þann tíma.

Álitamálið sé hver eigi að bera halla af þeim vafa sem ríki í málinu um tímamark örorkulífeyris og ekki sé einsýnt að kærandi eigi að njóta góðs af þeim vafa, sérstaklega í ljósi þess að honum hafi ítrekað verið synjað um örorkulífeyri þar sem staðall hafi ekki verið uppfylltur og ekki hafi verið sannað hvenær heilsuvandi hans hafi orðið svo slæmur að hann teldist að minnsta kosti 75% öryrki samkvæmt örorkustaðli. Í því sambandi beri að nefna að samkvæmt fyrri skoðunarskýrslu, dags. 17. desember 2019, hafi kærandi fengið tíu stig í líkamlega hluta matsins og tvö stig í andlega hlutanum, þar á meðal stig fyrir svefnörðugleika. Kærandi hafi því verið talsvert frá því að uppfylla örorkustaðal í lok árs 2019 og alls óljóst hvenær ástand hans hafi breyst til hins verra.

Þegar svo sé ástatt liggi beint við að horfa til seinni skoðunarskýrslunnar, dags. 12. ágúst 2022, því að það hafi verið byggt á túlkun á þeirri skýrslu að kærandi hafi á endanum verið talinn uppfylla skilyrði örorkulífeyris.

Þó svo að það komi fram í skýrslunni að færni kæranda hafi verið svipuð frá u.þ.b. 2015, þá beri læknum Tryggingastofnunar að leggja sjálfstætt mat á það atriði. Einnig beri læknum stofnunarinnar að leggja sjálfstætt mat á hvenær endurhæfing sé fullreynd og hak þess efnis í skoðunarskýrslunum ráði ekki því mati. Í því sambandi megi nefna að ef skoðunarskýrslur væru strangt til tekið taldar ráða för einar og sér, þá hefði kærandi ekki fengið örorkulífeyri, þar sem skilyrði slíks lífeyris hafi ekki verið talin uppfyllt samkvæmt haki í skýrslunum.

Í ljósi alls framangreinds sé niðurstaða Tryggingastofnunar sú að afgreiðsla á umsókn kæranda sé í senn lögmæt og málefnaleg. Stofnunin fari fram á staðfestingu á ákvörðun frá 30. maí 2023 um að ákvarða tímamark örorkulífeyris frá 1. júní 2022. 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. maí 2023 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var samþykkt frá 1. júní 2022 og var gildistími matsins ákvarðaður til 30. maí 2026. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á frekari afturvirkum greiðslum örorkulífeyris.

Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skal sækja um allar greiðslur samkvæmt þeim lögum. Örorkubætur reiknast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að greiðsluréttur er fyrir hendi samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laganna. Samkvæmt 4. mgr. nefndrar 32. gr. skulu greiðslur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um rétt til greiðslna og fjárhæð þeirra. Við mat á upphafstíma örorkumats kæranda lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess frá hvaða tíma kærandi uppfyllti skilyrði 75% örorku. Þegar úrskurðarnefndin metur hvort skilyrði örorku séu uppfyllt aftur í tímann horfir úrskurðarnefndin til þess hvers eðlis sjúkdómur eða fötlun viðkomandi er. Margs konar líkamleg fötlun er þess eðlis að hún kemur fram strax við fæðingu eða til dæmis við slys þannig að viðkomandi uppfyllir ótvírætt skilyrði örorku. Í öðrum tilvikum geta veikindi eða fötlun verið þess eðlis að hún sé hægt versnandi eða breytileg frá einum tíma til annars, svo sem ýmis andleg veikindi og hrörnunarsjúkdómar. Úrskurðarnefndin horfir einnig til þess hvort fyrir liggja samtímagögn, svo sem læknisvottorð eða mat annarra sambærilegra sérfræðinga, sem séu það ítarleg og skýr að byggja megi á þeim mat á örorku.

Af framangreindu má ráða að örorkulífeyrir skal reiknaður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að greiðsluréttur er fyrir hendi en þó aldrei lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn berast Tryggingastofnun ríkisins.

Eins og áður hefur komið fram var kærandi talinn uppfylla læknisfræðileg skilyrði örorkustyrks með örorkumati, dags. 19. desember 2019, og var gildistími matsins ákvarðaður frá 1. júní 2019 til 31. maí 2023. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. kærumál nr. 518/2020. Með úrskurði nefndarinnar, dags. 10. mars 2021, var ákvörðunin staðfest. Það örorkumat var byggt á skoðunarskýrslu F, dags. 17. desember 2019, þar sem kærandi hlaut tíu stig í líkamlega hluta staðalsins og tvö stig í andlega hluta staðalsins. Kærandi sótti reglulega um örorkulífeyri í framhaldinu og var meðal annars synjað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. október 2022, á þeim grundvelli að skilyrði staðals hafi ekki verið uppfyllt. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. kærumál nr. 51/2023, sem felldi ákvörðunina úr gildi með úrskurði, dags. 3. maí 2023, og féllst á að kærandi uppfyllti skilyrði 75% örorku. Málinu var heimvísað til ákvörðunar um gildistíma örorkumats. Hið kærða örorkumat var byggt á skýrslu E skoðunarlæknis, dags. 12. ágúst 2023, þar sem kærandi hlaut tíu stig samkvæmt líkamlega hluta staðalsins og fimm stig í andlega hluta staðalsins. Úrskurðarnefndin taldi að kærandi hefði átt að fá eitt stig til viðbótar í andlega hluta staðalsins vegna svefnvandamála.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun á kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Kveðst vera 191 cm að hæð og 111 kg að þyngd. Situr í viðtali í 45 mín án þess að standa upp en er aðeins að hreyfa sig í stólnum. Stendur auðveldlega upp úr stólnum án þess að styðja sig við. Góðar hreyfingar í öxlum og kemur höndum afturfyrr hnakka og afturfyrir bak. Nær í 2kg lóð frá gólfi. Heldur auðveldlega á 2 kg lóði með hægri og vinstri hendi án vandkvæða.Nær í og handleikur smápening með hægri og vinstri hendi án vandkvæða. Eðlilegt göngulag og gönguhraði Ekki saga um erfiðleika að ganga í stiga og það því ekki testað í viðta.i“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Þessi langvarandi heilsufarsvandi hefur hefur tekið á hans andlegu líðan. Þunglyndi og kvíði m.a. vegna afkomu. Erfitt með svefn ekki síst vegna verkja.“ 

Í athugasemdum segir í skýrslunni:

„Búinn að vera í Þraut verið í Virk í 17 mánuði. 2016 -17. Fer af og til í sjúkraþjáfun til að fá leiðbeiningar um æfingar . For síðan á gigtrasvið á Reykjalundi nú i vor í 6 vikur. Var þá nýlega búinn að vera á spitala og þurfti 4 poka af blóði og því mjög þreyttur. Hafði þó gagn af þeirri dvöl.“

Þá kemur fram í skýrslunni það mat skoðunarlæknis að færni kæranda frá árinu 2015 hafi verið svipuð og hún sé nú.

Skýrsla F skoðunarlæknis lá fyrir við örorkumat kæranda á árinu 2018 en hann átti viðtal við hann og skoðaði þann 17. desember 2019. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hann geti ekki setið meira en eina klukkustund og að hann geti ekki staðið nema 30 mínútur án þess að setjast. Að öðru leyti taldi skoðunarlæknir að kærandi byggi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda taldi skoðunarlæknir að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi og að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Gengur óhaltur, lyftir höndum yfir höfuð, Roterar höfði í 90 gráður til beggja hliða. Beygir sig fram og nema þá lófar allir í gólf. Gengur á tábergi og hælum. Gott jafnvægi, góður gripkraftur í höndum, vöðvaður og aumur á festum. Hávaxinn maður, grannur.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Er við ágæta geðheilsu, þreytur og svefn ekki í lagi. Raunhæfur, grunnstemning er hlutlaus.“

Dæmigerðum degi er lýst svo í skoðunarskýrslunni:

„Er að vakna um 11, fer þá í vinnu á kvöldin. Milli 13 - 16 er lítið í gangi. Safnar hugmyndum um daginn sem nýtist að kveldi í vinnu. Er hægur í hugsun og var hæglæs. Skúrar helst ekki, ryksugar, eldar mat, þvær þvotta. Ekur bíl, verslar, lyftir pokum. Göngugeta er hæg, en gengur, jafnvægi þokkalegt. Minni er sæmilegt, einbeiting er ekki góð. Samskipti á vinnustað ganga vel. Fer að sofa um miðnætt, sefur ekki vel. Reynt hákskóla nám en það er ekki að ganga sem skildi.“

Í athugasemdum segir:

„Var lengi í endurhæfingu, vefjagiktarleg einkenni. Hamlandi þreyta. En eru á grunni homocyseinureu. Gögn stemma við skoðun.“

Þá kemur fram í skýrslunni það mat skoðunarlæknis að færni kæranda hafi verið svipuð í áratugi og hún sé nú.

Meðfylgjandi nýjustu umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð C, dags. 13. október 2022. Í vottorðinu er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„HOMOCYSTINURIAE

VITAMIN B6 DEFICIENCYE

ESSENTIAL (PRIMARY) HYPERTENSIONI

JÁRNSKORTSBLÓÐLEYSI Í KJÖLFAR BLÓÐMISSIS (LANGVINNT)

MIGREN

MELAENA

VITAMIN D DEFICIENCY

INTESTINAL HAEMORRHAGE NOS

FIBROMYALGIA

GASTRO-ESOPHAGEAL REFLUX DISEASE

IRRITABLE BOWEL SYNDROME

CERVICALGIAM

IRON DEFICIENCY ANAEMIA (JÁRNSKORTUR

SÍMÍGRENI“

Um heilsuvanda og færniskerðingu nú segir í vottorðinu:

„Frá 2009 vaxandi þreyta og vöðvaverkir. Rannsóknir og meðferð leiddu í ljós sjúkdóminn Homocysteinuriu. Sá sjúkdómur veldur mikilli veiklun á bandvef í líkamanum svo sem stoðkerfi og æðakerfi. A hefur frá þessum tíma mikil vandamál varðandi meltingu með kroniskum niðurgangi B12 vitaminskorti og einnig dæmigerðum skorti á B6 með mikilli hækkun á Homocyseini sem ekki verður haldið í eðlilegum mörkum nema með mjög mikilli B vitamingjöf bæði í sprautu og töfluformi. D vitamin skortur verið stórt vandamál svo og nú aðalvandamálið sem er köst með miklum blæðingum frá stórum bláæðaflækjum sem eru í ristlinum. Fær hann þá ófyrirséð skyndilega miklar blæðingar sem valda mikilli lækkun á blóðgildi með tilheyrandi slappleika. Þarf þá að fara í járngjafir á 1-2ggja mánaða fresti en ekki tekst þrátt fyrir það að ná járnbúskap upp í æskileg mörk. Hann hefur farið í gegn um endurhæfingu og stundað vel án þess að komast í vinnufært ástand þar sem blæðingarnar með tilheyrandi einkennum valda slappleika og auka á verki a frá meltingavegi. Verið meira og minna óvinnufær þess. Reynt líkamlega vinnu en augljóslega ekki gengið. Einnig vinnu á leiksóla og kirkjustarfi en heldur ekki framkvæmanlegt. Heldur áfram að blæða og er ekki komist fyrir blæðinguna þar sem hann kemst ekki nógu fljótt að í gegn um bráðamáttökuna til að fá æðamyndatöku og er þá hætt að blæða þegar hann hefur verið rannsakaður daginn eftir að hann kemur. Er að gefast upp á þessu. Hefur kroniskan niðurgang sem virðist misslæmur og kemur ekki í tengslum við neitt sérstakt. Búið að rannsaka mikið og útiloka mjólkur og glúteinóþol. Meltingarlæknir hans hafa nein frekari ráð. Mikið þrek-og orkuleysi, svima, og stundum hraðan hjartslátt. Mikið vökvatap í tengslum við niðurganginn.“

Í lýsingu læknisskoðunar segir í vottorðinu:

„Gráfölur eins og oft áður hbg 118 járn Var 132 fyrir mánuði) 4. fékk járngjöf síðast fyrir mánuði. Mikil eymsli við vöðvafestur á háls og mjóbaki.“

Þá liggur fyrir læknisvottorð C, dags. 13. mars 2019, vegna eldri umsóknar um örorkulífeyri. Þar er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„Homocystinuria

Vitamin b6 deficiency

Essential (primary) hypertension

Járnskortsblóðleysi í kjölfar blóðmissis (langvinnt)

Migren

Melaena

Vitamin d deficiency“

Um sjúkrasögu segir svo í vottorðinu:

„Vaxandi þreyta og vöðvaverkir frá frá 2009. Rannsóknir og meðferð leitt í ljós sjúkdóminn Homocysteinuriu. Sá sjúkdómur veldur veiklun á bandvef í líkamanum sem sem stoðkerfi og æðar.

Mikil stoðkerfiseinkenni bæði mjóbaksvandamál og háls og höfuðverkir með slæmu migrene og blæðinga frá meltingavegi. Þarf reglulega á járngjöfum. Verið meira og minna óvinnufær þess vegna amk sl. 5 ár.“

Meðal gagna málsins er læknisvottorð H, dags. 10. mars 2022, vegna umsóknar kæranda um endurhæfingarlífeyri. Í tillögu að meðferð segir:

„Nú í febrúar fór A í mat á Reykjalundi og stendur til að hann fari þangað í 5 vikna endurhæfingar innlögn á næstunni. Ráð um framhaldsendurhæfingu í höndum lækna Reykjalundar.“

Í viðbótarupplýsingum segir:

„Járngjöf hefur verið ítrekað beitt og fellur hann að því er virðist jafnharðann. Til dæmis fékk hann venofer gjafir í október 2021 en mcv er komið niður 65 og hgb í 85 í byrjun árs. Starfsgeta með slíkt blóðleysi verður að teljast takmörkuð.“

Einnig liggur fyrir bréf frá Reykjalundi, dags. 7. júní 2022. Í bréfinu segir:

„Hann hefur verið að glíma við mikið blóðleysi og járnskort en helstu einkenni af því er þrek- og máttleysi, svimi, höfuðverkir og heilaþoka. Hann er gráleitur og með bláar varir vegna blóðleysis. Gigt og stoðkerfisvandi hefur einnig verið að hamla honum töluvert. Líkamleg áreynsla reynist honum mjög erfið.

Þessi langvarandi heilsufarsvandi hefur tekið mikið á hans andlegu líðan. A skoraði 21 stig á GAD-7 (alvarlegur kvíði) og 24 stig á PHQ-9 sem þýðir alvarleg þunglyndiseinkenni. Depurðina tengist helst hans líkamlega ástandi og afkomukvíða. A á erfitt með að festa svefn en hann fyllti út ISI svefnkvarðann og skorar 17 stig sem þýðir meðal alvarlegur svefnvandi. Aðalástæða svefnleysis er að verkir séu að hindra svefn.

[…]

Árið 2016 var A í Þraut, eftir það var hann í endurhæfingu hjá VIRK í 17 mánuði. Í kjölfar þess náði A ekki upp vinnufærni og telur teymið því endurhæfingu fullreynda hjá VIRK. A hefur verið að vinna 20% starf […] en hefur ekki náð að sinna því eins vel og hann vildi vegna heilsufarsvanda.

A hefur áður sótt um örorku. Síðast sótti hann um örorku 23.08.2020 sem var synjað vegna væntanlegrar komu hans á Reykjalund. A kom inn á Gigtasviði Reykjalundar í endurhæfingarmatsviku 07.02.22-11.02.22. A kom inn í 6 vikna endurhæfingu á Gigtasviði Reykjalyndar frá 11.04.22 og er útskrifaður 20.05.22. 11.04.22 lagðist hann inn á Landspítala vegna blæðingu rectalt (á endurhæfingartímabili). Hann hefur ekki getað stundað endurhæfinguna af fullum krafti vegna heilsufarsvanda.

A fékk metinn örorkustyrk 01.06.2019. A getur ekki fengið tvær greiðslu frá Tryggingastofnun Ríkisins á sama tíma (örorkustyrk og endurhæfingarlífeyri). Ekki var hægt að fella niður örorkustyrk til þess að fá endurhæfingarlífeyri nema að senda inn endurhæfingaráætlun sem sýnir fram á að hann sé að stefna á vinnumarkað á næstu misserum. Gigtateymi Reykjalundar telur ekki rökrétt að gera þessa endurhæfingaráætlun þar sem A er ekki talinn vinnufær. Þess vegna fékk A ekki endurhæfingarlífeyri á tímabilinu sem hann var í endurhæfingu á Reykjalundi. Í skjali inn á Tryggingastofnun Ríkisins þá er skjal dagsett 3.júlí 2018 segir að A sé búinn með 31 mánuð í endurhæfingarlífeyri.

[…]

Það er mat þverfaglegs teymis á Reykjalundi að það séu ennþá til staðar hamlandi einkenni þrátt fyrir þverfaglega endurhæfingu. Líkamleg heilsa og andleg líðan hefur áhrif á getu hans til þess að ástunda endurhæfingu. Einkenni hans hafa hamlandi áhrif á hans vinnugetu og ekki teljum við raunhæft að A stefni á vinnumarkað í náinni framtíð, þess vegna er sótt um örorkulífeyri hjá TR. A hefur nýtt alla þá endurhæfingu sem kostur er á.“

Einnig liggja fyrir frekari læknisvottorð vegna eldri umsókna kæranda um örorkulífeyri og fleiri bréf frá Reykjalundi.

Mál þetta varðar kröfu um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris. Með örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. maí 2023, var kæranda metinn örorkulífeyrir frá 1. júní 2022 til 30. maí 2026. Kærandi krefst þess að upphafstíminn verði ákvarðaður lengra aftur í tímann.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll gögn málsins. Fyrir liggur að kærandi hefur þegið endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð í 31 mánuð og að síðasta tímabilinu hafi lokið 30. september 2019. Kærandi hefur tvisvar sinnum gengist undir skoðun hjá skoðunarlækni vegna örorkumats, annars vegar þann 17. desember 2019 og hins vegar þann 12. ágúst 2022. Eins og greint hefur verið frá staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála án athugasemda ákvörðun stofnunarinnar, dags. 14. október 2020, um að kærandi uppfyllti ekki skilyrði örorkulífeyris með úrskurði í kærumáli 518/2020, dags. 10. mars 2021. Úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurðaði einnig um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. október 2022, um að synja kæranda um örorkulífeyri, með úrskurði, dags. 3. maí 2023, þar sem ákvörðun stofnunarinnar var felld úr gildi og fallist á að kærandi uppfyllti skilyrði 75% örorku. Ljóst er því að kærandi uppfyllti læknisfræðileg skilyrði örorku þegar skoðun skoðunarlæknis fór fram þann 12. ágúst 2022.

Úrskurðarnefnd velferðarmála horfir til þess að veikindi kæranda eru þess eðlis að þau geta verið breytileg frá einum tíma til annars. Þá telur úrskurðarnefndin að ráða megi af framangreindum skoðunarskýrslum að andlegt heilsufar kæranda hafi versnað frá skoðun skoðunarlæknis á árinu 2019. Að teknu tilliti til þess er það mat úrskurðarnefndar að gögn málsins staðfesti ekki með fullnægjandi hætti að kærandi hafi uppfyllt læknisfræðileg skilyrði örorku fyrir þann tíma sem Tryggingastofnun miðar við.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. maí 2023 um upphafstíma örorkumats kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli A, um upphafstíma örorkumats, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum